Þriðja Mósebók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27


Kafla 18

Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá: Ég er Drottinn, Guð yðar.
3 Þér skuluð ekki gjöra að háttum Egyptalands, þar sem þér bjugguð, og þér skuluð ekki gjöra að háttum Kanaanlands, er ég mun leiða yður inn í, né heldur skuluð þér breyta eftir setningum þeirra.
4 Lög mín skuluð þér halda og setningar mínar skuluð þér varðveita, svo að þér breytið eftir þeim. Ég er Drottinn, Guð yðar.
5 Þér skuluð því varðveita setningar mínar og lög. Sá sem breytir eftir þeim skal lifa fyrir þau. Ég er Drottinn.
6 Enginn yðar skal koma nærri nokkru nánu skyldmenni til þess að bera blygðan þeirra. Ég er Drottinn.
7 Þú skalt eigi bera blygðan föður þíns og blygðan móður þinnar. Hún er móðir þín, þú skalt eigi bera blygðan hennar.
8 Þú skalt eigi bera blygðan konu föður þíns, það er blygðan föður þíns.
9 Blygðan systur þinnar, dóttur föður þíns eða dóttur móður þinnar, hvort heldur hún er fædd heima eða utan heimilis, - blygðan þeirra skalt þú eigi bera.
10 Blygðan sonardóttur þinnar eða dótturdóttur, blygðan þeirra skalt þú eigi bera, því að það er þín blygðan.
11 Blygðan dóttur konu föður þíns, afkvæmis föður þíns - hún er systir þín -, blygðan hennar skalt þú eigi bera.
12 Eigi skalt þú bera blygðan föðursystur þinnar, hún er náið skyldmenni föður þíns.
13 Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar, því að hún er náið skyldmenni móður þinnar.
14 Eigi skalt þú bera blygðan föðurbróður þíns, eigi koma nærri konu hans, því að hún er sifkona þín.
15 Eigi skalt þú bera blygðan tengdadóttur þinnar. Hún er kona sonar þíns, eigi skalt þú bera blygðan hennar.
16 Eigi skalt þú bera blygðan konu bróður þíns. Það er blygðan bróður þíns.
17 Eigi skalt þú bera blygðan konu og dóttur hennar. Sonardóttur hennar eða dótturdóttur skalt þú eigi taka til þess að bera blygðan þeirra. Þær eru náin skyldmenni; það er óhæfa.
18 Né heldur skalt þú taka konu auk systur hennar, henni til eljurígs, með því að bera blygðan hennar auk hinnar, meðan hún er á lífi.
19 Eigi skalt þú koma nærri konu til að bera blygðan hennar, þá er hún er óhrein af klæðaföllum.
20 Þú skalt og eigi hafa holdlegt samræði við konu náunga þíns, svo að þú saurgist af.
21 Eigi skalt þú gefa nokkurt afkvæmi þitt til þess, að það sé helgað Mólok, svo að þú vanhelgir eigi nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.
22 Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.
23 Þú skalt ekki eiga samlag við nokkra skepnu, svo að þú saurgist af. Né heldur skal kona standa fyrir skepnu til samræðis við hana. Það er svívirðing.
24 Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku, því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig, sem ég mun reka á burt undan yður.
25 Og landið saurgaðist, og fyrir því vitjaði ég misgjörðar þess á því, og landið spjó íbúum sínum.
26 Varðveitið því setningar mínar og lög og fremjið enga af þessum viðurstyggðum, hvorki innborinn maður né útlendingur, er býr meðal yðar, -
27 því að allar þessar viðurstyggðir hafa landsbúar, er fyrir yður voru, framið, og landið saurgaðist -,
28 svo að landið spúi yður ekki, er þér saurgið það, eins og það spjó þeirri þjóð, er fyrir yður var.
29 Því að hver sá, er fremur einhverja af þessum viðurstyggðum, þær sálir, sem það gjöra, skulu upprættar verða úr þjóð sinni.
30 Varðveitið því boðorð mín, svo að þér fylgið eigi neinum af þeim andstyggilegu venjum, er hafðar voru í frammi fyrir yðar tíð, og saurgið yður ekki með því. Ég er Drottinn, Guð yðar."