Esekíel

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48


Kafla 47

Nú leiddi hann mig aftur að musterisdyrunum. Þá sá ég að vatn spratt upp undan þröskuldi hússins mót austri, því að framhlið musterisins vissi til austurs. Og vatnið rann niður undan suðurhlið musterisins, sunnanvert við altarið.
2 Síðan leiddi hann mig út um norðurhliðið og fór með mig í kring að utanverðu að ytra hliðinu, sem snýr í austurátt. Þá sá ég að vatn vall upp undan suðurhliðinni.
3 Maðurinn gekk nú í austur með mælivað í hendi sér og mældi þúsund álnir. Og hann lét mig vaða yfir um vatnið, og tók það mér í ökkla.
4 Þessu næst mældi hann þúsund álnir og lét mig vaða yfir um vatnið, tók vatnið mér þá til knés. Þá mældi hann enn þúsund álnir og lét mig vaða yfir um, tók vatnið mér þá í mjöðm.
5 Þá mældi hann enn þúsund álnir. Var þá vatnið orðið að fljóti, svo að ég mátti ekki yfir það komast, því að vatnið var of djúpt, var orðið sundvatn, óvætt fljót.
6 Hann sagði þá við mig: "Hefir þú séð þetta, mannsson?" Og hann leiddi mig aftur upp á fljótsbakkann.
7 Og er ég kom þangað aftur, sá ég mjög mörg tré á fljótsbökkunum beggja vegna.
8 Þá sagði hann við mig: "Þetta vatn rennur út á austurhéraðið og þaðan ofan á sléttlendið, og þegar það fellur í Dauðahafið, í salt vatnið, verður vatnið í því heilnæmt.
9 Og allar lifandi skepnur, allt sem hrærist, fær nýtt fjör alls staðar þar sem fljótið kemur, og fiskurinn mun verða mjög mikill, því að þegar þetta vatn kemur þangað, verður vatnið í því heilnæmt, og allt lifnar við, þar sem fljótið kemur.
10 Og fiskimenn munu standa við það frá En Gedí alla leið til En Eglaím, og vötn þess munu verða veiðistöðvar, þar sem net verða lögð. Og fiskurinn í því mun verða mjög mikill, eins og í hafinu mikla.
11 En pyttirnir og síkin þar hjá munu ekki vera heilnæm, þau eru ætluð til saltfengjar.
12 En meðfram fljótinu, á bökkunum beggja vegna, munu upp renna alls konar aldintré. Laufblöð þeirra munu ekki visna og ávextir þeirra ekki dvína. Á hverjum mánuði munu þau bera nýja ávöxtu, af því að vötnin, sem þau lifa við, koma frá helgidóminum. Og ávextir þeirra munu hafðir verða til matar og laufblöð þeirra til lyfja."
13 Svo segir Drottinn Guð: Þetta eru takmörkin, og innan þeirra skuluð þér skipta yður niður á landið eftir tólf ættkvíslum Ísraels, þó skal Jósef fá tvo hluti.
14 Þér skuluð fá landið til eignar, einn jafnt sem annar, með því að ég hét eitt sinn með eiði að gefa feðrum yðar það, og því skal land þetta falla yður til erfða.
15 Þetta skulu vera takmörk landsins að norðanverðu: Frá hafinu mikla í áttina til Hetlón, þangað er leið liggur til Hamat,
16 Sedad, Beróta, Sibraím, sem liggur á milli Damaskuslands og Hamatlands, til Hasar Enón, sem liggur á landamærum Havrans.
17 Takmörkin skulu þannig liggja frá hafinu til Hasar Enón, en Damaskusland liggur lengra til norðurs. Þetta er norðurhliðin.
18 Og austurhliðin: Frá Hasar Enón, sem liggur milli Havran og Damaskus, allt að eystra hafinu, er Jórdan takmarkalína milli Gíleaðs og Ísraelslands, allt til Tamar. Þetta er austurhliðin.
19 Og suðurhliðin gegnt hádegisstað: Frá Tamar alla leið til Meríbótvatna við Kades, að Egyptalandsá og þaðan til hafsins mikla. Þetta er suðurhliðin gegnt hádegisstað.
20 Og vesturhliðin: Hafið mikla ræður þar takmörkum allt þangað til komið er þar gegnt, er leið liggur til Hamat. Þetta er vesturhliðin.
21 Þér skuluð skipta þessu landi meðal yðar eftir ættkvíslum Ísraels.
22 Skuluð þér skipta því með hlutkesti til arfleifðar meðal yðar og þeirra útlendra manna, er búa meðal yðar og getið hafa sonu meðal yðar. Þá skuluð þér álíta innborna Ísraelsmenn, með yður skulu þeir varpa hlutum um arfleifð meðal ættkvísla Ísraels.
23 Þér skuluð fá hverjum útlendum manni arfleifð í þeirri ættkvísl, þar sem hann býr - segir Drottinn Guð.