Amos

1 2 3 4 5 6 7 8 9


Kafla 6

Vei hinum andvaralausu á Síon og hinum öruggu á Samaríufjalli, aðalsmönnum hinnar ágætustu meðal þjóðanna, og þeim, er Ísraels hús streymir til.
2 Farið til Kalne og litist um, og haldið þaðan til Hamat hinnar miklu og farið ofan til Gat í Filisteu. Eruð þér betri en þessi konungsríki, eða er land yðar stærra en land þeirra?
3 Þeir ímynda sér, að hinn illi dagur sé hvergi nærri, og efla yfirdrottnun ranglætisins.
4 Þeir hvíla á legubekkjum af fílsbeini og liggja flatir á hvílbeðjum sínum. Þeir eta lömb af sauðahjörðinni og ungneyti úr alistíunni.
5 Þeir raula undir með hörpunni, setja saman ljóð eins og Davíð.
6 Þeir drekka vínið úr skálum og smyrja sig með úrvals-olíu - en eyðing Jósefs rennur þeim ekki til rifja.
7 Fyrir því skulu þeir nú herleiddir verða í fararbroddi hinna herleiddu, og þá skal fagnaðaróp flatmagandi sælkeranna þagna.
8 Drottinn Guð hefir svarið við sjálfan sig, - segir Drottinn, Guð allsherjar: Ég hefi viðbjóð á ofmetnaði Jakobs, ég hata hallir hans og framsel borgina og allt, sem í henni er.
9 Ef tíu menn eru eftir í einu húsi, skulu þeir deyja,
10 og ef frændi hans og líkbrennumaður tekur hann upp til þess að bera beinin út úr húsinu og segir við þann, sem er í innsta afkima hússins: "Er nokkur eftir hjá þér?" og hinn segir: "Nei!" þá mun hann segja: "Þei, þei!" Því að nafn Drottins má ekki nefna.
11 Því sjá, Drottinn býður að slá skuli stóru húsin, þar til er þau hrynja, og litlu húsin, þar til er þau rifna.
12 Hlaupa hestar yfir kletta, eða erja menn sjóinn með uxum, úr því þér umhverfið réttinum í eitur og ávöxtum réttlætisins í malurt?
13 Þér gleðjist yfir Lódebar, þér segið: "Höfum vér ekki fyrir eigin rammleik unnið Karnaím?"
14 Já, sjá, gegn yður, Ísraelsmenn, - segir Drottinn, Guð allsherjar - mun ég hefja þjóð, og hún skal kreppa að yður þaðan frá, er leið liggur til Hamat, allt að læknum á sléttlendinu.