Jóhannesarguðspjall

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21


Kafla 21

Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig:
2 Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans.
3 Símon Pétur segir við þá: "Ég fer að fiska." Þeir segja við hann: "Vér komum líka með þér." Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert.
4 Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki, að það var Jesús.
5 Jesús segir við þá: "Drengir, hafið þér nokkurn fisk?" Þeir svöruðu: "Nei."
6 Hann sagði: "Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir." Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn.
7 Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: "Þetta er Drottinn." Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík - hann var fáklæddur - og stökk út í vatnið.
8 En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum.
9 Þegar þeir stigu á land, sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.
10 Jesús segir við þá: "Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða."
11 Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki, þótt þeir væru svo margir.
12 Jesús segir við þá: "Komið og matist." En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: "Hver ert þú?" Enda vissu þeir, að það var Drottinn.
13 Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn.
14 Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.
15 Þegar þeir höfðu matast, sagði Jesús við Símon Pétur: "Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?" Hann svarar: "Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig." Jesús segir við hann: "Gæt þú lamba minna."
16 Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: "Símon Jóhannesson, elskar þú mig?" Hann svaraði: "Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig." Jesús segir við hann: "Ver hirðir sauða minna."
17 Hann segir við hann í þriðja sinn: "Símon Jóhannesson, elskar þú mig?" Pétur hryggðist við, að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: "Elskar þú mig?" Hann svaraði: "Drottinn, þú veist allt. Þú veist, að ég elska þig." Jesús segir við hann: "Gæt þú sauða minna.
18 Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur, bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir, en þegar þú ert orðinn gamall, munt þú rétta út hendurnar, og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki."
19 Þetta sagði Jesús til að kynna, með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt, sagði hann við hann: "Fylg þú mér."
20 Pétur sneri sér við og sá lærisveininn, sem Jesús elskaði, fylgja á eftir, þann hinn sama, sem hallaðist að brjósti hans við kvöldmáltíðina, og spurði: "Herra, hver er sá, sem svíkur þig?"
21 Þegar Pétur sér hann, segir hann við Jesú: "Drottinn, hvað um þennan?"
22 Jesús svarar: "Ef ég vil, að hann lifi, þangað til ég kem, hverju skiptir það þig? Fylg þú mér."
23 Því barst sá orðrómur út meðal bræðranna, að þessi lærisveinn mundi ekki deyja. En Jesús hafði ekki sagt Pétri, að hann mundi ekki deyja. Hann sagði: "Ef ég vil, að hann lifi, þangað til ég kem, hverju skiptir það þig?"
24 Þessi er lærisveinninn, sem vitnar um allt þetta og hefur skrifað þetta. Og vér vitum, að vitnisburður hans er sannur.
25 En margt er það annað, sem Jesús gjörði, og yrði það hvað eina upp skrifað, ætla ég, að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur, sem þá yrðu ritaðar.