Jobsbók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42


Kafla 38

Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:
2 Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs með óskynsamlegum orðum?
3 Gyrð lendar þínar eins og maður, þá mun ég spyrja þig, og þú skalt fræða mig.
4 Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til.
5 Hver ákvað mál hennar - þú veist það! - eða hver þandi mælivaðinn yfir hana?
6 Á hvað var stólpum hennar hleypt niður, eða hver lagði hornstein hennar,
7 þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu?
8 Og hver byrgði hafið inni með hurðum, þá er það braust fram, gekk út af móðurkviði,
9 þá er ég fékk því skýin að klæðnaði og svartaþykknið að reifum?
10 þá er ég braut því takmörk og setti slagbranda fyrir og hurðir
11 og mælti: "Hingað skaltu komast og ekki lengra, hér skulu þínar hreyknu hrannir brotna!"
12 Hefir þú nokkurn tíma á ævi þinni boðið út morgninum, vísað morgunroðanum á stað hans,
13 til þess að hann gripi í jaðar jarðarinnar og hinir óguðlegu yrðu hristir af henni?
14 Hún breytist eins og leir undir signeti, og allt kemur fram eins og á klæði.
15 Og hinir óguðlegu verða sviptir ljósinu og hinn upplyfti armleggur sundur brotinn.
16 Hefir þú komið að uppsprettum hafsins og gengið á botni undirdjúpsins?
17 Hafa hlið dauðans opnast fyrir þér og hefir þú séð hlið svartamyrkursins?
18 Hefir þú litið yfir breidd jarðarinnar? Seg fram, fyrst þú veist það allt saman.
19 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið býr, og myrkrið - hvar á það heima,
20 svo að þú gætir flutt það heim í landareign þess og þekktir göturnar heim að húsi þess?
21 Þú veist það, því að þá fæddist þú, og tala daga þinna er há!
22 Hefir þú komið til forðabúrs snjávarins og séð forðabúr haglsins,
23 sem ég hefi geymt til tíma neyðarinnar, til orustu- og ófriðardagsins?
24 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið skiptist og austanvindurinn dreifist yfir jörðina?
25 Hver hefir búið til rennu fyrir steypiregnið og veg fyrir eldingarnar
26 til þess að láta rigna yfir mannautt land, yfir eyðimörkina, þar sem enginn býr,
27 til þess að metta auðnir og eyðilönd og láta grængresi spretta?
28 Á regnið föður eða hver hefir getið daggardropana?
29 Af kviði hverrar er ísinn útgenginn, og hrím himinsins - hver fæddi það?
30 Vötnin þéttast eins og steinn, og yfirborð fljótsins verður samfrosta.
31 Getur þú þrengt sjöstirnis-böndin eða fær þú leyst fjötra Óríons?
32 Lætur þú stjörnumerki dýrahringsins koma fram á sínum tíma og leiðir þú Birnuna með húnum hennar?
33 Þekkir þú lög himinsins eða ákveður þú yfirráð hans yfir jörðunni?
34 Getur þú lyft raust þinni upp til skýsins, svo að vatnaflaumurinn hylji þig?
35 Getur þú sent eldingarnar, svo að þær fari og segi við þig: "Hér erum vér!"
36 Hver hefir lagt vísdóm í hin dimmu ský eða hver hefir gefið loftsjónunum vit?
37 Hver telur skýin með visku, og vatnsbelgir himinsins - hver hellir úr þeim,
38 þegar moldin rennur saman í kökk og hnausarnir loða hver við annan?
39 Veiðir þú bráðina fyrir ljónynjuna, og seður þú græðgi ungljónanna,
40 þá er þau kúra í bæli sínu og vaka yfir veiði í þéttum runni?
41 Hver býr hrafninum fæðu hans, þá er ungar hans hrópa til Guðs, flögra til og frá ætislausir?