Síðara Korintubréf

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13


Kafla 12

Hrósa mér verð ég, þótt gagnlegt sé það ekki. En ég mun nú snúa mér að vitrunum og opinberunum Drottins.
2 Mér er kunnugt um mann, hann tilheyrir Kristi, sem fyrir fjórtán árum, - hvort það var í líkamanum eða utan líkamans, veit ég ekki, Guð veit það -, var hrifinn burt allt til þriðja himins.
3 Og mér er kunnugt um þennan mann, - hvort það var í líkamanum eða án líkamans, veit ég ekki, Guð veit það -,
4 að hann var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð, sem engum manni er leyft að mæla.
5 Af slíku vil ég hrósa mér, en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér, nema þá af veikleika mínum.
6 Þótt ég vildi hrósa mér, væri ég ekki frávita, því að ég mundi segja sannleika. En ég veigra mér við því, til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir.
7 Og til þess að ég skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp.
8 Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér.
9 Og hann hefur svarað mér: "Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika." Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.
10 Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.
11 Ég hef gjörst frávita. Þér hafið neytt mig til þess. Ég átti heimtingu á að hljóta meðmæli af yður. Því að í engu stóð ég hinum stórmiklu postulum að baki, enda þótt ég sé ekki neitt.
12 Postulatákn voru gjörð á meðal yðar af mikilli þrautseigju, tákn, undur og kraftaverk.
13 Í hverju voruð þér settir lægra en hinir söfnuðirnir, nema ef vera skyldi í því, að ég sjálfur hef ekki verið yður til byrði? Fyrirgefið mér þennan órétt.
14 Þetta er nú í þriðja sinn, að ég er ferðbúinn að koma til yðar, og ætla ég ekki að verða yður til byrði. Ég sækist ekki eftir eigum yðar, heldur yður sjálfum. Því að ekki eiga börnin að safna fé handa foreldrunum, heldur foreldrarnir handa börnunum.
15 Ég er fús til að verja því, sem ég á, já, leggja sjálfan mig í sölurnar fyrir yður. Ef ég elska yður heitar, verð ég þá elskaður minna?
16 En látum svo vera, að ég hafi ekki verið yður til byrði, en hafi verið slægur og veitt yður með brögðum.
17 Hef ég notað nokkurn þeirra, sem ég hef sent til yðar, til þess að hafa eitthvað af yður?
18 Ég bað Títus að fara og sendi bróðurinn með honum. Hefur þá Títus haft eitthvað af yður? Komum við ekki fram í einum og sama anda? Fetuðum við ekki í sömu fótsporin?
19 Fyrir löngu eruð þér farnir að halda, að vér séum að verja oss gagnvart yður. Nei, vér tölum fyrir augliti Guðs, eins og þeir, sem tilheyra Kristi. Allt er það yður til uppbyggingar, mínir elskuðu.
20 Ég er hræddur um, að mér muni þykja þér öðruvísi en ég óska, er ég kem, og að yður muni þykja ég öðruvísi en þér óskið og á meðal yðar kunni að vera deilur, öfund, reiði, eigingirni, bakmælgi, rógburður, hroki og óeirðir.
21 Ég er hræddur um, að Guð minn muni auðmýkja mig hjá yður, þegar ég kem aftur, og að ég muni hryggjast yfir mörgum þeirra, sem áður hafa syndgað og ekki hafa snúið sér frá saurlífi, frillulífi og ólifnaði, sem þeir hafa drýgt.