Síðara Korintubréf

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13


Kafla 4

Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast.
2 Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskot um vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.
3 En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast.
4 Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.
5 Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.
6 Því að Guð, sem sagði: "Ljós skal skína fram úr myrkri!" - hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.
7 En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.
8 Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki,
9 ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.
10 Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum.
11 Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru.
12 Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður.
13 Vér höfum sama anda trúarinnar sem skrifað er um í ritningunni: "Ég trúði, þess vegna talaði ég." Vér trúum líka og þess vegna tölum vér.
14 Vér vitum, að hann, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja oss ásamt Jesú og leiða oss fram ásamt yður.
15 Allt er þetta yðar vegna, til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar.
16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður.
17 Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt.
18 Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.