Fimmta Mósebók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34


Kafla 14

Þér eruð börn Drottins, Guðs yðar. Þér skuluð eigi rista skinnsprettur á yður né raka yður krúnu eftir framliðinn mann.
2 Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður, og þig hefir Drottinn kjörið til að vera eignarlýður hans umfram allar þjóðir, sem á jörðinni eru.
3 Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt.
4 Þessi eru þau ferfætt dýr, sem þér megið eta: naut, sauðfé og geitfé,
5 hirtir, skógargeitur, dáhirtir, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur.
6 Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta.
7 Af þeim sem jórtra, og af þeim sem alklofnar klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, hérann og stökkhérann, því að þeir jórtra að sönnu, en hafa eigi klaufir; þeir séu yður óhreinir, -
8 og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint. Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta.
9 Af lagardýrunum megið þér eta þessi: Öll þau, sem hafa sundugga og hreistur, megið þér eta,
10 en öll þau, sem ekki hafa sundugga og hreistur, megið þér ekki eta; þau séu yður óhrein.
11 Alla hreina fugla megið þér eta,
12 en þessa megið þér ekki eta: örninn, skegggamminn og gamminn,
13 gleðuna og fálkakynið, -
14 allt hrafnakynið, -
15 strútinn, svöluna, mávinn og haukakynið, -
16 ugluna, náttugluna og hornugluna,
17 pelíkanann, hrægamminn og súluna,
18 storkinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblökuna.
19 Öll fleyg skriðkvikindi séu yður óhrein; þau má eigi eta.
20 Öll hrein flugdýr megið þér eta.
21 Þér skuluð ekki eta neitt sjálfdautt. Útlendum manni, sem er innan borgarhliða þinna, mátt þú gefa það til að eta, eða selja það aðkomnum manni, því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður þinnar.
22 Þú skalt tíunda vandlega allan ávöxt af útsæði þínu, allt það er vex á mörkinni, á ári hverju,
23 og þú skalt eta frammi fyrir Drottni Guði þínum á þeim stað, sem hann velur til þess að láta nafn sitt búa þar, tíundina af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni og frumburði nautgripa þinna og sauðfénaðar, svo að þú lærir að óttast Drottin Guð þinn alla daga.
24 Og sé vegurinn of langur fyrir þig og getir þú eigi borið það, af því að staðurinn, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, er langt í burtu frá þér, þegar Drottinn Guð þinn hefir blessað þig,
25 þá skalt þú koma því í peninga, taka silfrið með þér og geyma þess vel og fara til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur.
26 Og fyrir silfrið skalt þú kaupa hvað sem þig lystir, nautgripi, sauðfé, vín, áfengan drykk eða hvað annað, sem þig langar í, og þú skalt neyta þess þar frammi fyrir Drottni Guði þínum og gleðja þig ásamt fjölskyldu þinni.
27 Og levítana, sem eru innan borgarhliða þinna, skalt þú ekki setja hjá, því að þeir hafa ekki hlut né óðal með þér.
28 Þriðja hvert ár skalt þú færa út alla tíund af ávexti þínum það árið og leggja hana niður innan borgarhliða þinna,
29 svo að levítar, því að þeir hafa ekki hlut né óðal með þér, útlendingar, munaðarleysingjar og ekkjur þær, sem eru innan borgarhliða þinna, megi koma og eta sig mett, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur að gjöra.