Fimmta Mósebók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34


Kafla 8

Öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður í dag, skuluð þér varðveita til eftirbreytni, svo að þér megið lifa og margfaldast og komast inn í landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, og fá það til eignar.
2 Þú skalt minnast þess, hversu Drottinn Guð þinn hefir leitt þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni til þess að auðmýkja þig og reyna þig, svo að hann kæmist að raun um, hvað þér býr í hjarta, hvort þú mundir halda boðorð hans eða ekki.
3 Hann auðmýkti þig og lét þig þola hungur og gaf þér síðan manna að eta, sem þú eigi þekktir áður né heldur feður þínir þekktu, svo að þú skyldir sjá, að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur að maðurinn lifir á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins.
4 Klæði þín hafa ekki slitnað á þér og fætur þínir hafa ekki þrútnað í þessi fjörutíu ár.
5 Ver því sannfærður um það, að eins og maður agar son sinn, svo agar Drottinn Guð þinn þig.
6 Varðveittu boðorð Drottins Guðs þíns, svo að þú gangir á hans vegum og óttist hann.
7 Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í gott land, inn í land, þar sem nóg er af vatnslækjum, lindum og djúpum vötnum, sem spretta upp í dölum og á fjöllum,
8 inn í land, þar sem nóg er af hveiti og byggi, vínviði, fíkjutrjám og granateplatrjám, inn í land, þar sem nóg er af olíutrjám og hunangi,
9 inn í land, þar sem þú munt ekki eiga við fátækt að búa og þar sem þig mun ekkert bresta, inn í land, þar sem steinarnir eru járn og þar sem þú getur grafið kopar úr fjöllunum.
10 Og þegar þú hefir etið og ert orðinn mettur, þá skalt þú vegsama Drottin Guð þinn fyrir landið góða, sem hann gaf þér.
11 Gæt þín, að þú gleymir ekki Drottni Guði þínum og haldir svo eigi boðorð hans, ákvæði og lög, sem ég legg fyrir þig í dag.
12 Lát eigi, þegar þú hefir etið og ert mettur orðinn og hefir reist fögur hús og býr í þeim,
13 þegar nautgripum þínum og sauðfénaði þínum fjölgar, þegar silfur þitt og gull eykst og allt sem þú átt,
14 lát þá eigi hjarta þitt ofmetnast og gleym eigi Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu,
15 sem leiddi þig um eyðimörkina miklu og hræðilegu, þar sem voru eitraðir höggormar og sporðdrekar og vatnslaust þurrlendi, og leiddi fram vatn handa þér af tinnuhörðum klettinum,
16 hann sem gaf þér manna að eta í eyðimörkinni, er feður þínir eigi þekktu, svo að hann gæti auðmýkt þig og svo að hann gæti reynt þig, en gjört síðan vel við þig á eftir.
17 Og seg þú ekki í hjarta þínu: "Minn eigin kraftur og styrkur handar minnar hefir aflað mér þessara auðæfa."
18 Minnstu heldur Drottins Guðs þíns, því að hann er sá, sem veitir þér kraft til að afla auðæfanna, til þess að hann fái haldið þann sáttmála, er hann sór feðrum þínum, eins og líka fram hefir komið til þessa.
19 En ef þú gleymir Drottni Guði þínum og eltir aðra guði, dýrkar þá og fellur fram fyrir þeim, þá votta ég yður í dag, að þér munuð gjörsamlega farast.
20 Eins og þjóðirnar, er Drottinn eyðir fyrir yður, svo munuð þér og farast, af því að þér hlýdduð ekki röddu Drottins Guðs yðar.