Fimmta Mósebók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34


Kafla 28

Ef þú hlýðir grandgæfilega raustu Drottins Guðs þíns, svo að þú varðveitir og heldur allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag, þá mun Drottinn Guð þinn hefja þig yfir allar þjóðir á jörðu,
2 og þá munu fram við þig koma og á þér rætast allar þessar blessanir, ef þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns:
3 Blessaður ert þú í borginni og blessaður ert þú á akrinum.
4 Blessaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur lands þíns og ávöxtur fénaðar þíns, viðkoma nautgripa þinna og burðir hjarðar þinnar.
5 Blessuð er karfa þín og deigtrog þitt.
6 Blessaður ert þú, þegar þú gengur inn, og blessaður ert þú, þegar þú gengur út.
7 Drottinn mun láta óvini þína bíða ósigur fyrir þér, þá er upp rísa í móti þér. Um einn veg munu þeir fara í móti þér, en um sjö vegu munu þeir flýja undan þér.
8 Drottinn láti blessun fylgja þér í forðabúrum þínum og í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann blessi þig í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
9 Drottinn gjöri þig að lýð, sem heilagur er fyrir honum, eins og hann hefir svarið þér, ef þú varðveitir skipanir Drottins Guðs þíns og gengur á hans vegum.
10 Og allar þjóðir á jörðinni munu þá sjá, að þú hefir nefndur verið eftir nafni Drottins, og þær munu óttast þig.
11 Drottinn mun veita þér gnægð gæða í ávexti kviðar þíns og í ávexti fénaðar þíns og í ávexti lands þíns í landi því, sem Drottinn sór feðrum þínum að gefa þér.
12 Drottinn mun upp ljúka fyrir þér forðabúrinu sínu hinu góða, himninum, til þess að gefa landi þínu regn á réttum tíma og blessa öll verk handa þinna, og þú munt fé lána mörgum þjóðum, en sjálfur eigi þurfa að taka fé að láni.
13 Drottinn mun gjöra þig að höfði og eigi að hala, og þú skalt stöðugt stíga upp á við, en aldrei færast niður á við, ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, til þess að þú varðveitir þær og breytir eftir þeim,
14 og ef þú víkur ekki frá neinu boðorða þeirra, er ég legg fyrir yður í dag, hvorki til hægri né vinstri, til þess að elta aðra guði og þjóna þeim.
15 En ef þú hlýðir ekki raustu Drottins Guðs þíns, svo að þú varðveitir og haldir allar skipanir hans og lög, er ég legg fyrir þig í dag, þá munu fram við þig koma og á þér hrína allar þessar bölvanir:
16 Bölvaður ert þú í borginni og bölvaður ert þú á akrinum.
17 Bölvuð er karfa þín og deigtrog þitt.
18 Bölvaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur lands þíns, viðkoma nautgripa þinna og burðir hjarðar þinnar.
19 Bölvaður ert þú, þegar þú gengur inn, og bölvaður ert þú, þegar þú gengur út.
20 Drottinn mun senda yfir þig bölvun, skelfing og ógnun í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur að gjöra, uns þú gjöreyðist og fyrirferst skyndilega sökum illra verka þinna - sökum þess, að þú yfirgafst mig.
21 Drottinn mun láta drepsóttina við þig loða, þar til er hann eyðir þér úr landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.
22 Drottinn mun slá þig með tæring og köldu, hita og bruna, með ofþurrki, korndrepi og gulnan, og mun þetta ásækja þig uns þú líður undir lok.
23 Himinninn yfir höfði þér skal verða sem eir og jörðin undir fótum þér sem járn.
24 Í stað regns mun Drottinn láta ryk og sandfok koma yfir land þitt; það mun falla yfir þig af himni, uns þú ert gjöreyddur.
25 Drottinn mun láta þig bíða ósigur fyrir óvinum þínum. Um einn veg munt þú fara í móti þeim, en um sjö vegu munt þú flýja undan þeim, og þú munt verða grýla fyrir öll konungsríki jarðarinnar.
26 Og hræ þín munu verða æti fyrir alla fugla himinsins og fyrir dýr jarðarinnar, og enginn mun fæla þau burt.
27 Drottinn mun slá þig með egypskum kaunum: með kýlum, kláða og útbrotum, svo að þú skalt verða ólæknandi.
28 Drottinn mun slá þig með vitfirring, blindni og hugarsturlan.
29 Þú munt fálma um hábjartan dag, eins og blindur maður fálmar í myrkri, og þú munt enga gæfu hljóta á vegum þínum, og þú munt alla daga sæta tómri undirokun og ránskap, og enginn mun hjálpa þér.
30 Þú munt festa þér konu, en annar maður mun leggjast með henni. Þú munt reisa hús, en eigi búa í því. Þú munt planta víngarð, en engar hans nytjar hafa.
31 Uxa þínum mun slátrað verða fyrir augunum á þér, en þú munt ekki fá neitt af honum að eta. Asna þínum mun rænt verða að þér ásjáandi, en hann mun eigi hverfa aftur til þín. Sauðir þínir munu seldir verða í hendur óvinum þínum, og enginn mun hjálpa þér.
32 Synir þínir og dætur munu seldar verða í hendur annarri þjóð, og augu þín skulu horfa á það og daprast af þrá eftir þeim allan daginn, en þú skalt eigi fá að gjört.
33 Ávöxt lands þíns og allt það, er þú hefir aflað þér með striti þínu, mun þjóð ein eta, sem þú ekki þekkir, og þú munt sæta áþján einni og undirokun alla daga,
34 og þú munt verða vitstola út af því, er þú verður að horfa upp á.
35 Drottinn mun slá þig með illkynjuðum ólæknandi kaunum á knjám og fótleggjum, frá iljum og allt upp á hvirfil.
36 Drottinn mun leiða þig og konung þinn, þann er þú munt taka yfir þig, til þeirrar þjóðar, er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, og þar munt þú þjóna öðrum guðum, stokkum og steinum.
37 Og þú munt verða að undri, orðskvið og spotti meðal allra þjóða, þeirra er Drottinn leiðir þig til.
38 Mikið kornsæði munt þú færa út á akrana, en litlu skalt þú aftur inn safna, því að engisprettur skulu upp eta það.
39 Þú munt planta víngarða og yrkja þá, en vín munt þú hvorki drekka né leggja fyrir til geymslu, því að maðkurinn mun eyða því.
40 Þú munt hafa olíutré um allt land þitt, en með olíu munt þú eigi smyrja þig, því að olífur þínar munu detta af.
41 Þú munt geta sonu og dætur, en ekki fá að njóta þeirra, því að þau munu fara í útlegð.
42 Öll tré þín og ávöxt lands þíns munu engispretturnar leggja undir sig.
43 Útlendingurinn, sem hjá þér er, mun stíga hærra og hærra upp yfir þig, en þú færast lengra og lengra niður á við.
44 Hann mun lána þér, en þú munt eigi lána honum, hann mun verða höfuðið, en þú munt verða halinn.
45 Allar þessar bölvanir munu koma fram á þér, elta þig og á þér hrína, uns þú ert gjöreyddur, af því að þú hlýddir ekki raustu Drottins Guðs þíns, að varðveita skipanir hans og lög, þau er hann fyrir þig lagði,
46 og þær skulu fylgja þér og niðjum þínum ævinlega sem tákn og undur.
47 Fyrir því að þú þjónaðir ekki Drottni Guði þínum með gleði og fúsu geði, af því að þú hafðir allsnægtir,
48 þá skalt þú þjóna óvinum þínum, þeim er Drottinn sendir í móti þér, hungraður og þyrstur, klæðlaus og farandi alls á mis, og hann mun leggja járnok á háls þér, uns hann hefir gjöreytt þér.
49 Drottinn mun stefna í móti þér þjóð einni úr fjarlægð, frá enda jarðarinnar, og kemur hún fljúgandi eins og örn, þjóð, hverrar tungu þú ekki skilur,
50 illúðlegri þjóð, sem eigi skeytir manngrein gamalmenna og enga vægð sýnir ungmennum.
51 Og hún mun eta ávöxt fénaðar þíns og ávöxt lands þíns, uns þú ert gjöreyddur. Hún mun ekki leifa þér korni, aldinlegi og olíu, viðkomu nauta þinna né burði hjarðar þinnar, uns hún hefir gjört út af við þig.
52 Hún mun gjöra umsát um þig í öllum borgum þínum, uns hinir háu og rammgjörvu múrar þínir, sem þú treystir á, eru hrundir um land þitt allt. Og hún mun gjöra umsát um þig í öllum borgum þínum alls staðar í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér.
53 Og þú munt eta ávöxt kviðar þíns, holdið af sonum þínum og dætrum, þeim er Drottinn Guð þinn hefir gefið þér. Svo nærri mönnum mun umsátrið ganga og þær hörmungar, er þú munt sæta af óvinum þínum.
54 Jafnvel sá maður meðal þín, sem mjúklífur er og mjög kveifarlegur, mun óblíðu auga líta bróður sinn, konuna í faðmi sínum og þau börnin sín, er hann enn á eftir,
55 og eigi tíma að gefa neinu af þeim neitt af holdi barna sinna, sem hann etur, af því að hann hefir ekkert annað til. Svo nærri mönnum mun umsátrið ganga og þær hörmungar, er þú munt sæta af óvinum þínum í öllum borgum þínum.
56 Mjúklíf og kveifarleg kona meðal þín, sem aldrei hefir reynt að tylla fæti sínum á jörðina af kveifarhætti og tepruskap, mun óblíðu auga líta manninn í faðmi sínum, son sinn og dóttur sína,
57 og fylgjuna, sem út gengur af skauti hennar, og börn sín, þau er hún elur, því að hún etur þau sjálf á laun, þegar allar bjargir eru bannaðar. Svo nærri mönnum mun umsátrið ganga og þær hörmungar, er þú munt sæta af óvinum þínum í öllum borgum þínum.
58 Ef þú gætir þess eigi að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls, þau er rituð eru í þessari bók, með því að óttast þetta dýrlega og hræðilega nafn, DROTTINN GUÐ ÞINN,
59 þá mun Drottinn slá þig og niðja þína með feiknaplágum, með miklum plágum og þrálátum, með illkynjuðum sjúkdómum og þrálátum,
60 og hann mun aftur láta yfir þig koma allar hinar egypsku sóttir, þær er þú hræðist, og þær munu við þig loða.
61 Auk þess mun Drottinn láta yfir þig koma alla þá sjúkdóma og allar þær plágur, sem ekki eru ritaðar í þessari lögmálsbók, uns þú ert gjöreyddur.
62 Aðeins fámennur hópur skal eftir verða af yður, í stað þess að þér áður voruð sem stjörnur himins að fjölda til, af því að þú hlýddir eigi raustu Drottins Guðs þíns.
63 Og eins og Drottinn áður fyrri hafði yndi af því að gjöra vel við yður og margfalda yður, eins mun Drottinn hafa yndi af að tortíma yður og gjöreyða, og þér munuð verða reknir burt úr því landi, er þér haldið nú inn í til þess að taka það til eignar.
64 Og Drottinn mun dreifa þér meðal þjóðanna frá einu heimsskauti til annars, og þar munt þú þjóna öðrum guðum, sem hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, stokkum og steinum.
65 Og meðal þessara þjóða munt þú eigi mega búa í næði, og hvergi mun hvíldarstaður vera á fæti þínum, heldur mun Drottinn gefa þér þar skjálfandi hjarta, þrotnandi augu og ráðþrota sál.
66 Líf þitt mun leika fyrir þér sem á þræði, og þú munt hræddur vera nótt og dag og aldrei vera ugglaus um líf þitt.
67 Á morgnana muntu segja: "Ó, að það væri komið kveld!" og á kveldin muntu segja: "Ó, að það væri kominn morgunn!" sökum hræðslu þeirrar, er gagntekið hefir hjarta þitt, og sökum þess, er þú verður að horfa upp á.
68 Drottinn mun flytja þig aftur til Egyptalands á skipum, þá leið, er ég sagði um við þig: "Þú skalt aldrei framar líta hana!" Og þar munuð þér boðnir verða óvinum yðar til kaups að þrælum og ambáttum, en enginn vilja kaupa.