Kafla 38

Davíðssálmur. Minningarljóð. (38:2)

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
2 (38:3) Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.
3 (38:4) Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.
4 (38:5) Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.
5 (38:6) Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.
6 (38:7) Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.
7 (38:8) Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.
8 (38:9) Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.
9 (38:10) Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.
10 (38:11) Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.
11 (38:12) Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.
12 (38:13) Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.
13 (38:14) En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,
14 (38:15) ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.
15 (38:16) Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,
16 (38:17) því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."
17 (38:18) Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.
18 (38:19) Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,
19 (38:20) og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.
20 (38:21) Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.
21 (38:22) Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,
22 (38:23) skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.