Kafla 85

Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur. (85:2)

Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,
2 (85:3) þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]
3 (85:4) Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.
4 (85:5) Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.
5 (85:6) Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?
6 (85:7) Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?
7 (85:8) Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!
8 (85:9) Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.
9 (85:10) Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.
10 (85:11) Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.
11 (85:12) Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.
12 (85:13) Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.
13 (85:14) Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.