Kafla 55

Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl. (55:2)

Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.
2 (55:3) Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn
3 (55:4) sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.
4 (55:5) Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,
5 (55:6) ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,
6 (55:7) svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,
7 (55:8) já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]
8 (55:9) Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."
9 (55:10) Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.
10 (55:11) Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.
11 (55:12) Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.
12 (55:13) Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig - það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig - fyrir honum gæti ég farið í felur,
13 (55:14) heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,
14 (55:15) við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.
15 (55:16) Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.
16 (55:17) En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.
17 (55:18) Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.
18 (55:19) Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.
19 (55:20) Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.
20 (55:21) Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.
21 (55:22) Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.
22 (55:23) Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.
23 (55:24) Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.