Kafla 7

Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta. (7:2)

Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,
2 (7:3) svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.
3 (7:4) Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,
4 (7:5) hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,
5 (7:6) þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]
6 (7:7) Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.
7 (7:8) Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.
8 (7:9) Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.
9 (7:10) Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!
10 (7:11) Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.
11 (7:12) Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.
12 (7:13) Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,
13 (7:14) en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.
14 (7:15) Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.
15 (7:16) Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.
16 (7:17) Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.
17 (7:18) Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.